Úff…þarf greinilega að blogga oftar, þarf alltaf að kíkja á síðustu færslu til að sjá hvað ég var búin að blogga um 😉
En…ég hljóp sem sagt í Hreppslaugarhlaupinu og var nú ekkert sérstaklega ánægð með árangurinn. Fannst ég vera þung á mér og ekki í neinu hlaupastuði. Borðaði frekar óskynsamlega í hádeginu og var líklega enn að vinna úr þeirri máltíð þegar hlaupið byrjaði. Þurfti að labba a.m.k. einu sinni, ef ekki tvisvar, áður en ég kom að 3,5 km markinu sem ég var frekar ósátt með þar sem að ég get alveg hlaupið 4,4 km án þess að stoppa. Kenni hádegismáltíðinni algjörlega um þetta 😉 En, en…tíminn 51:04 sem er sem sagt núna eitthvað til að bæta 🙂 Vona samt að þetta hlaup sé komið til að vera þar sem þátttakan var mjög góð.
Reykjavíkurmaraþonið var svo sl. laugardag. Fór kvöldinu áður í bæinn og gisti hjá systur minni þar sem hún ætlaði líka að hlaupa. Það leit nú ekkert sérstaklega vel út með veður þennan dag, en þetta reyndist svo bara vera hið ágætasta hlaupaveður, ca 12°C, skýjað, næstum því logn, engin rigning fyrr en alveg í lok hlaupsins og þá eiginlega frekar úði en rigning.
Ég náði því að hlaupa næstum því alla leið og er það í fyrsta skipti sem ég hef hlaupið svona langt án þess að labba á milli. Var örugglega búin með 9,5 km áður en ég fór að labba. Fyrsta markmiðið mitt í hlaupinu var að hlaupa alveg samfleytt 5 km, þar sem ég veit að ég get það alveg. Þegar ég kom að 5 km skiltinu þá hugsaði ég að fyrst ég komst þetta þá kemst ég nú 1 km í viðbót og ákvað að endurskoða stöðuna við 6 km skiltið. Aftur var svo staðan endurskoðuð þá og ákveðið að bíða eftir 7 km skiltinu. Því missti ég hreinlega af og allt í einu var ég komin 8 km hlaupandi! Þá hugsaði ég nú að ég gæti þá alveg hlaupið að 9 km markinu og gerði það. Þá voru lappirnar orðnar frekar þreyttar en mér fannst ég ekkert vera móð sem ég var hrikalega ánægð með. Rölti því aðeins upp síðasta hallann og svo pínulítið í viðbót. Varð hins vegar ekkert ánægð þegar ég sá tímann þar sem þar stóð 1:17:44 þegar ég sá þetta fyrst og sms-ið sem ég fékk í símann minn hljóðaði upp á óstaðfestan flögutíma 1:18:02! Frekar fúl með þetta þar sem markmiðið hafði verið að bæta tímann frá því í Miðnæturhlaupinu í júní. Kíkti svo inn á hlaup.is um kvöldið og þá lyftist nú heldur betur brúnin þar sem staðfestur flögutími var kominn inn og bæting upp á 2 mínútur og 27 sekúndur lá fyrir 😀 „Leynimarkmiðið“ mitt fyrir þetta hlaup var nefnilega að hlaupa þetta á 73 mínútum komma eitthvað. Fannst það ágætis viðmið þar sem ég er fædd 1973 😉 En já…það tókst þótt það munaði ekki miklu og ég er hrikalega sátt við þetta allt saman!
Reykjavíkurmaraþonið er alveg hreint ofboðslega skemmtilegt hlaup. Brautin er auðveld og þótt maður fíli sig svolítið eins og sardína í dós þar sem það er alveg hreint ótrúlegt magn af fólki að hlaupa, þá finnur maður ekkert fyrir því (a.m.k. þegar maður er svona aftarlega eins og ég var). Stemmningin að sjá allan þennan hóp af fólki á undan sér og eftir sér er ólýsanleg og eins auka allir sem eru að hvetja mann áfram meðfram hlaupaleiðinni á stemmninguna og gera hlaupið auðveldara. Ég hugsaði oft um það að nú gæti ég varla meira og ætlaði að fara að labba, en þá voru alltaf einhverjir sem hvöttu mann áfram og maður næstum því fann hvernig þreytan hálfpartinn hvarf! Enda voru það aðallega lappirnar á manni sem voru að stríða mér, þ.e. þreyta, „lungnalega“ séð hefði ég alveg getað hlaupið meira.
Var annars að kíkja yfir markmiðasíðuna mína og sá að ég er eiginlega búin að ná öllum markmiðunum sem ég setti mér fyrir árið, þ.e. hlaupamarkmiðum. Á eftir að ná að hlaupa 5 km á undir 30 mínútum en held að ég geti það varla fyrir áramót. Ef það tekst þá er það frábært, annars reyni ég bara að ná þessu í vetur. Spurning um að setja sér ný hlaupamarkmið fyrir hlaupaveturinn 2013-2014?
En jæja…búið í bili 🙂