Up and running…

…a.m.k. í dag 😉 Skoppaði á hlaupaæfingu, náttúrulega með nýjustu græjur á mér. Er búin að læra það mikið á þetta að ég kann að virkja GPS-ið, en þá er það líka upptalið! Klukkan er enn tveimur tímum of fljót (kann ekki að stilla hana) þannig að þetta er svo sem ekki það mikið sem ég kann…en það er aðeins til bóta! Er þa´kki annars? 😉

Þrettándinn í dag og samkvæmt hefðinni á að afskreyta. Held ég taki þetta í áföngum og hreinsi smám saman. Á eftir að klára að vinna og koma drengjunum í háttinn. Þeir voru víst eitthvað þreyttir í dag, greyin, hverju svo sem það er að kenna *hóst*! Það verður samt gaman að taka skrautið niður og velta fyrir sér hvar það fer upp á næstu jólum. Nýr staður til að skreyta og svoleiðis…bara spennandi!

En jæja…ætla að hætta í bili og fara að koma drengjunum í bælið svo ég standi við það að þeir fari snemma að sofa!

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Ótrúlegt en satt….

Það stóðst sem sagt sem ég sagði í síðasta bloggi, að blogga aftur fyrir áramót! 🙂 Kannski er þetta eitt af þessum jólakraftaverkum? 😉 

Við höfðum það annars bara fínt um jólin. Börnin ánægð með sínar gjafir og við fullorðna fólkið himinlifandi með okkar gjafir. Gæti ekki verið betra…

Nýja árið handan við hornið og ég búin að skrá mig í „100 days of miles“ áskorun sem er sem sagt að hlaupa 100 mílur á árinu 2014. Það verður ekki mikið vandamál svo framarlega sem maður kemur sér af stað! Ætla að byrja spræk á nýársdag að hlaupa aftur, vonandi verð ég búin að læra eitthvað á nýju græjuna mína þá og vona líka að hlaupabuxurnar verði ekki orðnar of litlar eftir allt átið um jólin! 😉 Það verður þá bara takmark að komast í þær aftur. Maður býr ekki til vandamál úr því sem ekki er vandamál! Auk þess ætla ég í nokkur önnur hlaup á árinu, sem tekst vonandi. Markmið fyrir 2014 komin inn á síðuna, á vonandi eftir að bæta við eftir því sem mér dettur meira í hug!

Margt spennandi að gerast á nýju ári…flutningar, nýr starfsvettvangur að hluta til, klára vonandi námið mitt í vor og hlakka þar af leiðandi til lærdómslauss hausts, að minnsta kosti verð ég ekki með nefið ofan í námsbókum. Mun samt vonandi læra heilmikið annað enda ekki vanþörf á.

En jæja…býst ekki við að blogga aftur fyrr en á næsta ári! Gleðilegt ár dúllurnar mínar og megi það verða okkur öllum sem farsælast!

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Bráðum koma blessuð jólin…

…og ekki er ég að standa mig neitt betur í bloggheimum 😉 En það verður bara að hafa sinn gang, ég blogga bara þegar ég blogga! 😉

Ýmislegt hefur gerst frá síðasta bloggi. Haustönn lokið og tveir áfangar í viðbót komnir í sarpinn. Næstu tveir verða þeir síðustu í þessu námi og get ég ekki sagt annað en að ég hlakki smá til að klára. Gott að geta notið hversdagsins án þess að lærdómurinn hangi yfir manni. Það verður samt örugglega skrítið næsta haust að þurfa ekki að sækja um neina áfanga, en ég mun hafa nóg að gera samt sem áður. 
Annað sem hefur gerst síðan síðast er að ég náði að komast yfir á annan tug í árafjölda. Heil 40 ár síðan ég fæddist, hvorki meira né minna…eða jú…aðeins meira, ég átti jú afmæli í nóvember og er sem sagt orðin 40 ára og 23 daga gömul (ekki það að maður sé neitt að telja). Ég ákvað að halda upp á það og sé sko ekki eftir því! Hrikalega skemmtilegt og ég á pottþétt eftir að gera þetta aftur næst þegar ég verð fertug! :p Mæli með þessu…
Ég fékk fullt af stórglæsilegum gjöfum í afmælisgjöf og er enn orðlaus yfir örlæti fólks! Hluti af þessum gjöfum var í formi peninga eða gjafakorta og nýtti ég hluta þess til að kaupa mér hlaupaúr. Sá að Afreksvörur (hlaupabúð í Glæsibæ) var að auglýsa svona úr á Facebook og þar sem ég hef tröllatrú á vörum úr Afreksvörum þá ákvað ég að láta vaða og keypti mér svona græju, með púlsmæli og alles. Núna vantar mig bara hlaupajakka (er líka búin að versla mér hlaupabuxur) og þá er ég orðin vel græjuð…svo er bara að læra á blessað tækið, en ég hef nægan tíma yfir jólin til að fikta 😉 Jú reyndar vantar mig líka gorma til að geta hlaupið í þessari vetrarfærð sem er núna…

Markmiðin mín fyrir árið 2013 voru eingöngu hlaupalegs eðlis. Mér tókst að standast þau öll nema tvö, að taka þátt í öllum Flandrasprettum (hef ekki tekið þátt í einum einasta á árinu) og að hlaupa 5 km á undir 30 mínútum. Þar sem barnapían mín er flutt að heiman þá geri ég mér ekki miklar vonir um að komast á Flandraæfingar á komandi ári en ætla bara að reyna að vera dugleg hérna sjálf. Það tókst fyrir Reykjavíkurmaraþonið og það skal takast aftur! 🙂 Ég veit að ég get þetta…þarf bara að halda áfram.

En jæja…vinnan kallar…planið er að blogga aftur fyrir áramót 😉

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Já já já…

Allt farið í rugl hérna á síðunni, þ.e. ég stend mig ekki í blogginu. Mánuður síðan síðast, sem er reyndar svolítið fyndið þar sem að ég óskapast í huganum yfir kæruleysinu í fólki að blogga ekki oftar þegar ég fer minn daglega blogghring í tölvunni 😉 En já, ég ætti víst fyrst að líta í eigin barm í stað þess að tuða (þó það sé bara í huganum) yfir öðrum. 

Fátt og lítið gerst í hreyfingu síðan síðast. Eiginmaðurinn er líka á haus í rollustússi þannig að ég kemst lítið á æfingar hjá Flandra þar sem að hann (sko eiginmaðurinn) kemur yfirleitt ekki heim fyrr en kl. 19. Nú finnur maður sko fyrir því að frumburðurinn er fluttur að heiman…þessi innbyggða barnapía var svoooo þægileg 😉 Hvað um það, það verður sko bara tekið á því þegar tækifæri gefst 😉 Hef reyndar verið í stöðvaþjálfun í íþróttahúsinu hérna á Hvanneyri tvisvar í viku fyrir vinnu og það er bara æði! Því verður haldið áfram í a.m.k. 2 mánuði í viðbót, vonandi lengur.

Ég gerði smá samning við eiginmanninn um daginn. Ef ég held mig frá nammi í mánuð þá má ég kaupa mér tvo kertastjaka sem mig hefur langað í síðan snemma í sumar! Fékk að taka verðlaunin út 3 vikum fyrr þar sem téðir kertastjakar voru á 25% afslætti í gær, þannig að nú er bara að standa sig í stykkinu og borða ekkert nammi til 21. október! Það tekst örugglega alveg, hef sleppt því að borða nammi síðan á laugardag og þetta er bara ekkert mál! Og kertastjakarnir fara svoooo vel á skenknum 😉

Veit svo sem ekki hvað ég ætti að segja ykkur meira…væri voðalega gott ef þið mynduð „kvitta fyrir komuna“, ef það er einhver sem kemur hingað inn, bara svo ég sjái hvort einhver lesi þetta 🙂

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Reykjavíkurmaraþon og fleira

Úff…þarf greinilega að blogga oftar, þarf alltaf að kíkja á síðustu færslu til að sjá hvað ég var búin að blogga um 😉

En…ég hljóp sem sagt í Hreppslaugarhlaupinu og var nú ekkert sérstaklega ánægð með árangurinn. Fannst ég vera þung á mér og ekki í neinu hlaupastuði. Borðaði frekar óskynsamlega í hádeginu og var líklega enn að vinna úr þeirri máltíð þegar hlaupið byrjaði. Þurfti að labba a.m.k. einu sinni, ef ekki tvisvar, áður en ég kom að 3,5 km markinu sem ég var frekar ósátt með þar sem að ég get alveg hlaupið 4,4 km án þess að stoppa. Kenni hádegismáltíðinni algjörlega um þetta 😉 En, en…tíminn 51:04 sem er sem sagt núna eitthvað til að bæta 🙂 Vona samt að þetta hlaup sé komið til að vera þar sem þátttakan var mjög góð.

Reykjavíkurmaraþonið var svo sl. laugardag. Fór kvöldinu áður í bæinn og gisti hjá systur minni þar sem hún ætlaði líka að hlaupa. Það leit nú ekkert sérstaklega vel út með veður þennan dag, en þetta reyndist svo bara vera hið ágætasta hlaupaveður, ca 12°C, skýjað, næstum því logn, engin rigning fyrr en alveg í lok hlaupsins og þá eiginlega frekar úði en rigning. 
Ég náði því að hlaupa næstum því alla leið og er það í fyrsta skipti sem ég hef hlaupið svona langt án þess að labba á milli. Var örugglega búin með 9,5 km áður en ég fór að labba. Fyrsta markmiðið mitt í hlaupinu var að hlaupa alveg samfleytt 5 km, þar sem ég veit að ég get það alveg. Þegar ég kom að 5 km skiltinu þá hugsaði ég að fyrst ég komst þetta þá kemst ég nú 1 km í viðbót og ákvað að endurskoða stöðuna við 6 km skiltið. Aftur var svo staðan endurskoðuð þá og ákveðið að bíða eftir 7 km skiltinu. Því missti ég hreinlega af og allt í einu var ég komin 8 km hlaupandi! Þá hugsaði ég nú að ég gæti þá alveg hlaupið að 9 km markinu og gerði það. Þá voru lappirnar orðnar frekar þreyttar en mér fannst ég ekkert vera móð sem ég var hrikalega ánægð með. Rölti því aðeins upp síðasta hallann og svo pínulítið í viðbót. Varð hins vegar ekkert ánægð þegar ég sá tímann þar sem þar stóð 1:17:44 þegar ég sá þetta fyrst og sms-ið sem ég fékk í símann minn hljóðaði upp á óstaðfestan flögutíma 1:18:02! Frekar fúl með þetta þar sem markmiðið hafði verið að bæta tímann frá því í Miðnæturhlaupinu í júní. Kíkti svo inn á hlaup.is um kvöldið og þá lyftist nú heldur betur brúnin þar sem staðfestur flögutími var kominn inn og bæting upp á 2 mínútur og 27 sekúndur lá fyrir 😀 „Leynimarkmiðið“ mitt fyrir þetta hlaup var nefnilega að hlaupa þetta á 73 mínútum komma eitthvað. Fannst það ágætis viðmið þar sem ég er fædd 1973 😉 En já…það tókst þótt það munaði ekki miklu og ég er hrikalega sátt við þetta allt saman!

Reykjavíkurmaraþonið er alveg hreint ofboðslega skemmtilegt hlaup. Brautin er auðveld og þótt maður fíli sig svolítið eins og sardína í dós þar sem það er alveg hreint ótrúlegt magn af fólki að hlaupa, þá finnur maður ekkert fyrir því (a.m.k. þegar maður er svona aftarlega eins og ég var). Stemmningin að sjá allan þennan hóp af fólki á undan sér og eftir sér er ólýsanleg og eins auka allir sem eru að hvetja mann áfram meðfram hlaupaleiðinni á stemmninguna og gera hlaupið auðveldara. Ég hugsaði oft um það að nú gæti ég varla meira og ætlaði að fara að labba, en þá voru alltaf einhverjir sem hvöttu mann áfram og maður næstum því fann hvernig þreytan hálfpartinn hvarf! Enda voru það aðallega lappirnar á manni sem voru að stríða mér, þ.e. þreyta, „lungnalega“ séð hefði ég alveg getað hlaupið meira.

Var annars að kíkja yfir markmiðasíðuna mína og sá að ég er eiginlega búin að ná öllum markmiðunum sem ég setti mér fyrir árið, þ.e. hlaupamarkmiðum. Á eftir að ná að hlaupa 5 km á undir 30 mínútum en held að ég geti það varla fyrir áramót. Ef það tekst þá er það frábært, annars reyni ég bara að ná þessu í vetur. Spurning um að setja sér ný hlaupamarkmið fyrir hlaupaveturinn 2013-2014?

En jæja…búið í bili 🙂

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

YESS!!!!

Fór í gær og labbaði stóra Hvanneyrarhringinn og svo styttri „suður-í-land-hringinn“ í beinu framhaldi af því…ætli þetta hafi ekki verið svona um 6 km, geri ég ráð fyrir. Þarf að fá einhvern með mér sem á einhverskonar GPS tæki eða eitthvað svoleiðis og mæla með mér leiðirnar 🙂 

Yess-ið þarna í titlinum er hins vegar vegna þess að ég fór út að hlaupa áðan, stóra Hvanneyrarhringinn eins og venjulega og bætti besta tímann um ca hálfa mínútu! 31:07 var tíminn og ég er ekkert smá ánægð með þetta!! Ef þetta er ekki spark í hlauparassinn þá veit ég ekki hvað! Svo er það bara plús að króníska óléttubumban (sem hefur verið á mér síðustu 5 árin) virðist vera að minnka eitthvað…kannski sé ég það bara en ég tel mér að minnsta kosti trú um það!! 😉

Hreppslaugarhlaupið (7 km) er svo á fimmtudag…fer líklega út að labba á morgun en annars er það bara hvíld þangað til. 

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Hlaupihlaup…

Jæja…ákvað að rifja upp gamla takta í vikunni svona í tilefni þess að það eru tvö tímatökuhlaup framundan. Annars vegar Hreppslaugarhlaupið á fimmtudaginn og hins vegar Reykjavíkurmaraþonið eftir 2 vikur. Ekki seinna vænna en að byrja að liðka sig aðeins til fyrir það. 

Hef sem sagt hlaupið þrisvar sinnum í þessari viku og alltaf stóra Hvanneyrarhringinn (4,4 km skv. mælingum á kortavef ja.is). Byrjaði á mánudeginum, ákvað að taka því rólega en reyna að skokka allan hringinn. Það tókst og mér leið bara ágætlega á leiðinni, hugsaði með mér að formið hefði nú kannski ekki farið svo langt í burtu frá mér. Hljóp sem sagt þessa um það bil 4,4 km á 33:17. Var bara sátt við tímann þar sem ég hafði ekki hlaupið í einhverjar vikur og bjóst við lengri tíma.
Á miðvikudeginum hljóp ég aftur þessa sömu leið, en ákvað nú að bæta aðeins í hraðann. Leið ekki eins vel en samt allt í lagi þannig séð…var samt farin að hægja á mér eftir því sem leið á hringinn. Náði samt að bæta tímann og hljóp á 31:44. Bæting upp á ca 1,5 mínútur sem ég er bara alveg ágætlega sátt við. 
Í dag hljóp ég svo í þriðja sinn í þessari viku. Sama leiðin, byrjaði kannski í hraðara lagi en ákvað svo að taka skynsemina á þetta og hlaupa  bara rólega í dag. Hef greinilega samt hlaupið hraðar en ég ætlaði þar sem að ég varð frekar uppgefin frekar fljótt. :/ Labbaði meira að segja nokkra metra. *roðn* Þeir voru reyndar ekki margir. Tíminn í lokin var 31:51 og var ég bara ágætlega sátt við það þar sem mér fannst ég frekar búin á því. Markmiðið var þar að auki ekki að bæta tímann frá því síðast, heldur bara fara út að hlaupa. Er búin að komast að því núna að það er betra að hlaupa í smá vindi og skýjuðu heldur en eins og var í dag, 16° og sól á köflum og næstum enginn vindur.

Stefni svo að því að hlaupa aðeins á morgun og þriðjudaginn, hvíla vel á miðvikudag og hlaupa svo 7 km í Hreppslaugarhlaupinu á fimmtudaginn 🙂 

Annars lítið búið að gerast síðan síðast. Tíminn hefur flogið áfram í sumar, ágúst að verða hálfnaður og frumburðurinn að fara að flytja að heiman eftir 8 daga!!! GISP eins og Andrés önd komst svo vel að orði þarna um árið. Veit ekki alveg hvor okkar er spenntari, ég eða hún 😉 

En jæja…ætla að fara að gera eitthvað af viti…hvað það er er ég ekki alveg búin að ákveða, en það verður örugglega eitthvað hrikalega sniðugt 😉

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Helgin…

Jamms…fór í Brákarhlaupið og hljóp 3 km á 20:13…bara þokkalega sátt við það…hef ekki hlaupið þá vegalengd áður á tíma þannig að þetta stendur bara til bóta…er það ekki bara? 🙂

Bjó til markmiðasíðu, svona meira til að halda mér við efnið og fylgjast með hverju ég hef áorkað á árinu. Skrifa svo fyrir aftan ef mér tókst að standa við markmiðið, strika yfir ef mér tókst það ekki.

Eftir Brákarhlaupið skruppum við fjölskyldan suður í heimsókn til mágs míns. Skoppuðum í sund og eftir það var okkur svo boðið upp á grillaða bleikju, veidda af gestgjafanum. Ljómandi góð alveg hreint. Í Reykjavíkurferðinni keyptum við líka 4 skópör og borguðum fyrir þau um 12.600 krónur og erum alveg ágætlega sátt við þau kaup 🙂 Það var sko svona „2 fyrir 1“ tilboð og að auki 30% afsláttur af því skópari sem maður þurfti að borga fyrir! Bara snilld…verst að ég fann enga skó á sjálfa mig… 😉

Í dag fengu bræðurnir vini í heimsókn og svo skruppum við heim til pabba og buðum honum í mat. Heyskapur í gangi og svoleiðis þannig að við ákváðum að elda bara fyrir hann svo hann þyrfti ekki að byrja á því þegar hann kæmi inn. Vorum sem sagt að koma heim og er stefnan tekin beint á bælið enda 100% Borgarnesvinna framundan næstu vikuna…

Góða nótt og bless í bili…

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Er á lífi!

Júbbs…mikil ósköp! Ég lifði 10 km af 🙂 Bjóst nú svo sem ekki við öðru, en þetta gekk alveg ágætlega. Hljóp/labbaði þetta á 1:16:19 skv. flögutíma og er bara þokkalega ánægð. Nú er bara að sjá hvernig gengur að bæta þennan tíma í ágúst! Viðurkenni það alveg að lærin á mér voru nú ekkert voðalega sátt við meðferðina og launuðu mér það með extra skammti af harðsperrum í fyrradag og í gær…er nú að lagast þótt ég finni nú alveg fyrir þessu ennþá. Eftir ca 6 km þá byrjaði vinstri mjöðmin líka að plaga mig en ég skrifa það bara á óvenju mikla hreyfingu. Skrokkurinn minn er ekki vanur svona meðferð 😉 

Núna byrja ég sem sagt að hlaupa eftir 5-10 km prógrammi frá hlaup.is sem ég hef tröllatrú á og mun örugglega hjálpa mér að bæta tímann frá því í Miðnæturhlaupinu 😉

Búið í bili!

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Þá er komið að því!!

Í kvöld mun ég í fyrsta skipti á ævinni (a.m.k. síðan í grunnskóla) hlaupa 10 km! Já já, skráði mig í Miðnæturhlaupið í Reykjavík og þar sem ég var búin að bíta í mig að hlaupa 2 x 10 km í sumar þá ákvað ég að núna væri kominn tími á fyrra hlaupið, svona fyrst ég komst ekki 10 km á Mývatni…sko, ég fór ekki í hlaupið á Mývatni, held ég hefði örugglega komist þetta ef ég hefði farið 😉 Mottóið mitt fyrir hlaupið í kvöld verður „Kemst þótt hægt fari“ enda stefni ég ekki á nein stórræði. Aðalatriðið er að komast þetta…jú og helst fyrir miðnætti! 

Annars dreymdi mig þvílíka vitleysu í nótt. Greinilega orðin nett stressuð fyrir hlaupið þar sem að draumurinn fjallaði mikið til um allt sem gæti klikkað eða komið fyrir! Hjartslátturinn rauk upp úr öllu valdi og ég veit ekki hvað og hvað. Var með þvílíka kvíðatilfinningu, hugsaði út í hvað ég væri eiginlega að koma mér, en þetta reddast. Ég mun komast þetta á mínum hraða, það verður einhver að vera síðastur! Stefnan er að klára þetta á 90 mínútum…vonandi tekst það! Úff…ekki hljómar þetta jákvætt og upplífgandi, er greinilega enn frekar stressuð!

Dagurinn verður sem sagt tekinn rólega, er í fríi frá Borgarnes vinnunni en er að vinna í hinni vinnunni. Legg svo af stað um hálf 8 í kvöld í nesið þaðan sem ég fæ far suður (og vonandi til baka 😉 ). Verð svo í fríi frá báðum vinnum á morgun og hinn, þannig að maður fær góðan tíma til afslöppunar 😉

Planið eftir þetta hlaup er svo að byrja á nýju hlaupaprógrammi til að æfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið (aðrir 10 km þar og stefnt að bætingu á tíma). Þetta er 8 vikna prógramm sem hjálpar manni að æfa sig frá 5 og upp í 10 km. Ætti því að vera klár í slaginn í ágúst 😉 

En jæja…ætla að halda áfram að undirbúa mig andlega. 😉 Læt vita á morgun hvernig gekk. Ef einhver les þetta þá má viðkomandi hugsa voðalega fallega til mín milli kl. 22 og 23:30 í kvöld 😀

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd