…og ekki er ég að standa mig neitt betur í bloggheimum 😉 En það verður bara að hafa sinn gang, ég blogga bara þegar ég blogga! 😉
Ýmislegt hefur gerst frá síðasta bloggi. Haustönn lokið og tveir áfangar í viðbót komnir í sarpinn. Næstu tveir verða þeir síðustu í þessu námi og get ég ekki sagt annað en að ég hlakki smá til að klára. Gott að geta notið hversdagsins án þess að lærdómurinn hangi yfir manni. Það verður samt örugglega skrítið næsta haust að þurfa ekki að sækja um neina áfanga, en ég mun hafa nóg að gera samt sem áður.
Annað sem hefur gerst síðan síðast er að ég náði að komast yfir á annan tug í árafjölda. Heil 40 ár síðan ég fæddist, hvorki meira né minna…eða jú…aðeins meira, ég átti jú afmæli í nóvember og er sem sagt orðin 40 ára og 23 daga gömul (ekki það að maður sé neitt að telja). Ég ákvað að halda upp á það og sé sko ekki eftir því! Hrikalega skemmtilegt og ég á pottþétt eftir að gera þetta aftur næst þegar ég verð fertug! :p Mæli með þessu…
Ég fékk fullt af stórglæsilegum gjöfum í afmælisgjöf og er enn orðlaus yfir örlæti fólks! Hluti af þessum gjöfum var í formi peninga eða gjafakorta og nýtti ég hluta þess til að kaupa mér hlaupaúr. Sá að Afreksvörur (hlaupabúð í Glæsibæ) var að auglýsa svona úr á Facebook og þar sem ég hef tröllatrú á vörum úr Afreksvörum þá ákvað ég að láta vaða og keypti mér svona græju, með púlsmæli og alles. Núna vantar mig bara hlaupajakka (er líka búin að versla mér hlaupabuxur) og þá er ég orðin vel græjuð…svo er bara að læra á blessað tækið, en ég hef nægan tíma yfir jólin til að fikta 😉 Jú reyndar vantar mig líka gorma til að geta hlaupið í þessari vetrarfærð sem er núna…
Markmiðin mín fyrir árið 2013 voru eingöngu hlaupalegs eðlis. Mér tókst að standast þau öll nema tvö, að taka þátt í öllum Flandrasprettum (hef ekki tekið þátt í einum einasta á árinu) og að hlaupa 5 km á undir 30 mínútum. Þar sem barnapían mín er flutt að heiman þá geri ég mér ekki miklar vonir um að komast á Flandraæfingar á komandi ári en ætla bara að reyna að vera dugleg hérna sjálf. Það tókst fyrir Reykjavíkurmaraþonið og það skal takast aftur! 🙂 Ég veit að ég get þetta…þarf bara að halda áfram.
En jæja…vinnan kallar…planið er að blogga aftur fyrir áramót 😉